Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 676, 133. löggjafarþing 302. mál: ársreikningar (vanskil á ársreikningi).
Lög nr. 160 15. desember 2006.

Lög um breyting á lögum nr. 3/2006, um ársreikninga.


1. gr.

     121. gr. laganna orðast svo:
     Ef stjórnarmenn eða framkvæmdastjórar félaga, sem falla undir 1. tölul., 2. tölul. eða 2. málsl. 4. tölul. 1. gr., vanrækja að semja ársreikning eða samstæðureikning er lög þessi kveða á um eða vanrækja að standa skil á ársreikningi eða samstæðureikningi til opinberrar birtingar, telst sú háttsemi vera meiri háttar brot gegn lögunum.
     Ef stjórnarmenn eða framkvæmdastjórar félaga skv. 1. gr. rangfæra ársreikning, samstæðureikning eða einstaka hluta þeirra, byggja ekki samningu þeirra á niðurstöðu bókhalds eða láta rangar eða villandi skýringar fylgja, enda varði brotið ekki við 158. gr. almennra hegningarlaga, telst sú háttsemi vera meiri háttar brot gegn lögunum.
     Sama á við ef maður aðstoðar stjórnarmenn eða framkvæmdastjóra félaga við þau brot sem lýst er í þessari grein eða stuðlar að þeim á annan hátt.

2. gr.

     Á eftir 1. mgr. 122. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
     Ef stjórnarmenn eða framkvæmdastjórar félaga, sem falla undir 3. tölul. eða 1. málsl. 4. tölul. 1. gr., vanrækja að semja ársreikning eða samstæðureikning er lög þessi kveða á um, telst sú háttsemi vera brot gegn lögum þessum.

3. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 126. gr. laganna:
  1. Á eftir orðunum „skv. 1. mgr.“ í 1. málsl. 2. mgr. kemur: sbr. þó 3. mgr.
  2. Á eftir 2. mgr. koma tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
  3.      Þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. er ársreikningaskrá heimilt að leggja sektir á þau félög sem falla undir 3. tölul. eða 1. málsl. 4. tölul. 1. gr. og vanrækja að standa skil á ársreikningi eða samstæðureikningi til opinberrar birtingar. Við mat á því hvort félög falla undir 3. tölul. eða 1. málsl. 4. tölul. 1. gr. er ársreikningaskrá heimilt að nýta sér upplýsingar frá ríkisskattstjóra skv. 2. mgr. 117. gr. Þá er ársreikningaskrá heimilt að leggja sektir á félög sem falla undir 1. gr. laganna og vanrækja að leggja fram fullnægjandi upplýsingar eða skýringar með ársreikningi eða samstæðureikningi sem lagður hefur verið fram til opinberrar birtingar. Heimild ársreikningaskrár til að leggja á sektir samkvæmt þessari málsgrein er óháð því hvort brotið megi rekja til saknæms verknaðar fyrirsvarsmanns eða starfsmanns lögaðilans. Sektarfjárhæðin nemur allt að 500.000 kr. og rennur í ríkissjóð. Sektin er aðfararhæf. Sektarákvörðun ársreikningaskrár er kæranleg til yfirskattanefndar, sbr. lög nr. 30/1992.
         Fjármálaráðherra skal setja reglugerð um nánari framkvæmd á sektarheimild ársreikningaskrár.


4. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi og skulu gilda fyrir hvert það reikningsár sem hefst 1. janúar 2006 eða síðar.

Samþykkt á Alþingi 9. desember 2006.